
Haustlaukar - Inngangur
Fyrirheit um litríkt vor
Vorblómstrandi laukar eru með fyrstu blómunum sem birtast þegar snjóa leysir á vorin. Að gróðursetja haustlauka er því ávísun á litríkt vor.
Hvað eru haustlaukar?
Haustlaukar er samheiti yfir ýmsar gerðir af plöntum sem safna forða í lauka, hnýði eða jarðstöngla sem eru gróðursett á haustin. Ástæðan fyrir haustgróðursetningu er sú að þessar tegundir þurfa kuldatímabil til að blómstra. Lengd kuldatímabilsins þarf að vera um 3 mánuðir, en hitastigið þarf ekki endilega að fara niður fyrir frostmark. Því má gróðursetja haustlauka frameftir hausti á meðan jörð er ófrosin, og jafnvel lengur ef þeir eru gróðursettir í potta.
Flestar tegundir haustlauka blómstra á vorin, en þó eru nokkrar undantekningar þar á. Dæmi um haustblómstrandi tegundir sem geta blómstrað hér, a.m.k. sunnanlands, eru haustliljur (Colchicum) og haustblómstrandi krókusar (Crocus).
Ræktunarskilyrði
Allar tegundir haustlauka eiga það sameiginlegt að þrífast best í vel framræstum jarðvegi á sólríkum stað. Krókusar þurfa t.d. sól til að blómin springi út. Sumar tegundir, t.d. vetrargosar, stjörnuliljur og stórblóma páskaliljur þola skugga part úr degi.
Gróðursetningardýpt fer eftir laukastærð. Miðað er við að dýptin samsvari um það bil þrefaldri hæð lauksins.
Smálauka s.s. krókusa og snæstjörnur má gróðursetja í grasflatir, en þá þarf að bíða með fyrsta slátt þar til lauf laukanna hefur sölnað.
Það á við um allar tegundir sem safna forða í lauka eða hnýði að til að þær geti blómstrað aftur að ári má ekki klippa laufið niður eftir blómgun. Það verður að fá að sölna alveg þannig að plantan nái að klára forðasöfnun fyrir næsta ár. Þess vegna er fallegast að planta þeim innan um fjölærar plöntur sem taka við og fela laufið, án þess þó að skyggja of mikið á það eftir að blómgun er lokið.