Algengustu tegundir haustlauka og blómgunartími
Með því að velja saman mismunandi tegundir af haustlaukum með mismunandi blómgunartíma er hægt að njóta blómstrandi lauka frá mars-júlí og jafnvel fram á haust með hléum með síðblómstrandi skrautlaukum (Allium) og haustblómstrandi laukum eins og haustliljum (Colchicum).
Til þess að ná samfelldri blómgun á vormánuðum er gott að þekkja helstu tegundir haustlauka og hvenær þeirra blómaskeið er. Blómgunartíminn er breytilegur eftir staðsetningu og tíðarfari. Það getur munað 2-3 vikum milli ára eftir því hvernig viðrar, en blómgunarröðin er alltaf sú sama. Blómgun mismunandi tegunda skarast þannig að vetrargosar og vorblómstrandi írisir eru enn í blóma þegar fyrstu krókusar og snæstjörnur byrja að blómstra.
Ég veitti því eftirtekt þegar ég fór að velta fyrir mér blómaskeiðum sumarsins og hvaða plöntur eru að blómstra á svipuðum tíma að umskipti verða frekar í kringum 20. hvers mánaðar frekar en um mánaðarmót. Plönturnar fylgja sólarganginum, ekki dagatalinu. Það vill svo skemmtilega til að það gerðu gömlu íslensku mánuðirnir líka. Vorjafndægur eru í kringum 20. mars, um það leiti sem síðasti vetrarmánuðurinn, einmánuður, gengur í garð og það er einmitt um svipað leiti sem vetrargosar, vorírisir og fyrstu krókusarnir springa út þegar vel vorar og sólin skín.
Mars - apríl

- Vetrargosar (Galanthus)

- Vorblómstrandi írisir (Iris)
Apríl - maí

- Krókusar (Crocus) (lok mars ef vel árar)

- Snæstjörnur (Chionodoxa)

- Postulínsliljur (Puschkinia)

- Stjörnuliljur (Scilla)
Lok apríl - júní

- Snotrur (Anemone)

- Hátíðaliljur (Narcissus)
Maí - júní

- Perluliljur (Muscari)

- Klukkuliljur (Hyacinthoides)

- Goðaliljur (Hyacinthus)

- Keisaraliljur (Fritillaria)

- Túlipanar (Tulipa)
Júní - ágúst

- Skrautlaukar (Allium)

- Indíánaliljur (Camassia)
September-október (nóvember)

- Haustliljur (Colchicum)

- Haustblómstrandi krókusar (Crocus)